Fimm mílur frá Ytri-Von

Nicola Barker. Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi.

Bjartur, 2003

Litla Gunna og litli Jón eignast rosalega stóra stelpu

Það er einhver skemmtilega ævintýraleg stemning yfir sögu Nicolu Barker, Fimm mílur frá Ytri-Von. Reyndar minnir andrúmsloftið dálítið á aðrar Neon bækur bókaútgáfunnar Bjarts, eins og söguna af kínversku saumastúlkunni og belgíska ritaranum í Japan (Balzac og kínverska saumastúlkan eftir Dai Sijie og Undrun og skjálfti eftir Amélie Nothomb). Allar eiga þessar sögur sameiginlegt að vera fremur 'litlar' sögur af skrýtnum og skemmtilegum atburðum, sögur sem gleðja lesandann og lofa henni að skyggnast inn í líf og tilverur sem líklegast eru henni nokkuð ókunnugar.
Líkt og áðurnefndar bækur er skáldsaga Barker ekki bók sem þarf að setja sig í stellingar yfir, þetta er fyndin og sniðug saga sem gaman er að grípa í og máta sig við: fyrir okkur sem vorum unglingar á níunda áratugnum er reynslan vissulega dálítið skemmtilega skrítin, sérstaklega fyrir okkur sem vorum lágvaxnar þá (og erum jafnvel enn), því sagan er sögð af unglingsstúlku sem er óvenjulega hávaxin, öfugt við aðra fjölskyldumeðlimi sem allir eru óvenju smáir. Sagan gerist sumsé snemma á níunda áratugnum, nánar tiltekið árið 1981:

Til þess nú að negla þennan þokukennda tíma í rétta röð, til að staðsetja hann með tilliti til alþekktra atburða sem höfðu gríðarlega þýðingu fyrir þjóðina alla – kjaftæði, fyrir alheiminn – til að setja sem sé allt saman í fullkomið samhengi, ef svo má segja, þá var þetta einmitt árið sem hljóðgervilsdísin hrífandi, þessi djarflega klísturgreiddi, prakkaralegi sópran með ælænerinn, Marc Almond (Marc með lágu séin), átti magnaðan síðsumarsmell, nefnilega rafræna endurgerð af gamla sóllaginu hennar Gloriu Jones, "Tainted Love" [...]. (6)

"Já, það ár" ítrekar sögustúlkan Medve, sem er 16 ára og líður mjög fyrir hæð sína og umfang, sérstaklega þegar hún ber sig saman við eldri systur sína sem er fínleg og falleg 19 ára dama. Þegar sagan gerist býr fjölskyldan á (hálf-)eyju fyrir utan strönd Devon, og passar þar einskonar hálfhrunið hótel. Nema öll fjölskyldan er ekki til staðar, mamman vinnur að rannsóknum í Bandaríkjunum og systirin glæsta er einnig fjarri góðu gamni. Hinn lágvaxni faðir er nokkuð sérstakur og vegna krónískrar garnaflækju hefur hann alið börnin upp á grænmetisfæðu, en þó aðallega fljótandi fæði. Meltingarmál og annað skylt er því mikið mál á heimilinu. Inn í þessa samfélag kemur svo suður-afrískur unglingur með franskt nafn, La Roux, aðeins eldri en Medve og ruglar okkar konu laglega í ríminu.

Að mörgu leyti mætti segja að hér væri á ferðinni dálítið klassísk unglingasaga, bara skrifuð fyrir fullorðna (eins og svo margar sögur af unglingspiltum, gaman að fá eina af unglingsstúlku), sem lýsir því vel hvernig unglingurinn upplifir líkama sinn og tekst á við fyrstu ástina – sem að sjálfsögðu hellist yfir þvert gegn vilja unglingsins sjálfs og birtist fyrst og fremst í stríðni, hrekkjum og slagsmálum. En það er ekki hægt að afgreiða söguna þannig því Barker setur þetta kunnuglega tema inn í sérstakan, næstum sirkuslegan heim þessarar misstóru fjölskyldu. Fjölskyldan, annað klassísk tema, birtist ekki aðeins í ýktum andstæðum stærðarmunar, heldur dregur Barker upp kostuglegan heim átaka, þarsem þessir trúðslegu fjölskyldumeðlimir takast á um vináttu og hollustu og skipa sér stöðugt í fylkingar. Óvænt innrás hins furðulega La Roux (því ekki halda að hann sé eitthvað venjulegur) verður þess valdandi að 'eðlileg' fjölskylduátök herðast til muna og eru dregin miskunnarlaust fram í dagsljósið.
Þetta tragikómíska samspil hversdagleika og fáránleika (og ekki gleyma hvað hversdagleikinn er fáránlegur) birtist síðan í stílnum sem þýðandinn Elísa Björg Þorsteinsdóttir hefur náð sérlega góðu tangarhaldi á. Eins og ljóst má vera af tilvitnuninni hér að ofan er sagan skrifuð á einskonar unglingamáli, með miklum áherslum, sem til að byrja með virkaði þreytandi (ég meina það, fær maður ekki að heyra nóg af þessu ósvífnislega tungutaki hjá krökkunum sjálfum, þarf maður að lesa það líka?) en vann fljótlega á, ekki síst vegna þess að fimi þýðandans dregur fram margvísleg blæbrigði í stíl sem við fyrstu sýn virðist ekki bjóða upp á neitt annað en einhæfni. Þannig sogast lesandinn inn í söguna með hjálp tungumálsins og áður en varir er hún farin að hugsa í skáletrunum.

Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2004


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Bettý | 24.03.2010
Þær glæpasögur sem hvað mest hafa verið áberandi hér á landi eru lögreglusögur, sem sverja sig nokkuð í ætt við norrænar sakamálasögur, og einkennast af ákveðnu félagsraunsæi í bland við samfélagslýsingar. ...
Týndu augun | 24.03.2010
Týndu augun eftir Sigrúnu Eldjárn ber þess nokkur merki að nú er kominn upp aukinn áhugi á átakameiri sögum fyrir börn, í kjölfar vinsælda bókanna um Harry Potter, Hringadróttinssögu og hinna rammíslensku Blíðfinnsbóka. ...
Mér fannst þessi orð úr fyrsta ljóði bókarinnar Inn og út um gluggann eins og töluð til mín, því þó ég sé hrifin af skáldsögum og smásögum og örsögum Kristínar Ómarsdóttur, þá er ég hrifnust af ljóðunum hennar, og finnst alltaf eins og hún sé komin heim þegar hún skrifar ljóð. ...
Það er varla hægt að hugsa sé meiri andstæður en útvarpsþáttinn Zombí, þarsem Gunnar Hjálmarsson og Sigurjón Kjartansson fara mikinn, og hæglætisbækur Gyrðis Elíassonar, Tvífundnaland og Hótelsumar. Samt fylgist þetta að hjá mér þennan morguninn. ...
Svartir Englar | 24.03.2010
Ég var svo heppin að fá í hendurnar handrit af nýrri glæpasögu Ævars Arnar Jósepssonar, Svartir englar. (Lesist: sem gagnrýnandi var ég beðin að koma með komment, ef ég væri nægilega hrifin!). Með glóðheitt handritið settist ég svo niður fyrir framan MTV sjónvarpsskjáinn (sem ég nota sem útvarp) og hellti mér í lesturinn. ...
Blóðregn | 24.03.2010
Ég verð að játa að mér hefur alltaf leiðst Njála, og þegar ég frétti að nú ætti að færa hana í myndasöguform varð ég fyrir vonbrigðum. Hinsvegar varð ég ekki fyrir vonbrigðum með Blóðregn og er ekki laust við að sagan hafi gefið mér nýjan áhuga á Njálu, allavega nýja sýn á söguna. ...
Skugga-Baldur
Skugga-Baldur | 24.03.2010
Skuggabaldur er afkvæmi kattar og tófu, þó sumir segi hann getinn af samræði kattar og hunds. Og Skugga-Baldur er nýjasta afkvæmi rithöfundarins Sjóns og bókaforlagsins Bjarts. Skugga-Baldur í skáldsögu Sjóns er stóran hluta sögunnar á tófuveiðum og verður þar fyrir óvæntri upplifun, eins og gengur þegar fólk fer á íslensk fjöll, full af þjóðsögum. ...


Booksearch

Author:
Book:


Skipta um leturstærð


Tungumál