Undantekningin

Christian Jungersen. Ólöf Eldjárn þýddi.

Mál og menning, 2006

Höfundur þessarar bókar, Christian Jungersen, er danskur. Hann vakti talsverða athygli fyrir sína fyrstu skáldsögu, Krat, sem kom út árið 1999. Það tók hann átta ár að klára Undantekninguna. Hann hefur sagt að magnið skipti ekki máli heldur gæðin. Eflaust margir sem geta tekið undir það enda bókin margverðlaunuð metsölubók. Í Krat var fjallað um vináttu tveggja karla á efri árum. Í báðum bókunum er sálarlíf persónanna rannsakað og ekki er alltaf ljóst hvað er satt og hvað ekki þegar kemur að uppgjöri við fortíðina og reyndar líka það sem er að gerast í núinu.

Undantekningin gerist að miklu leyti á dönsku upplýsingastofunni um þjóðarmorð þar sem vinna fjórar konur og einn karlmaður. Karlmaðurinn er yfirmaður, sem ekki er óvenjulegt. Iben og Malene eru vinkonur en samt er nokkur samkeppni þeirra á milli. Camilla er ritari og Anne-Lise er bókavörður stofnunarinnar. Hótunarbréf sem berast í tölvupósti til Ibenar og Malene verða til þess að velta upp á yfirborðið alls konar undarlegum hugmyndum hjá konunum. Hver stendur á bak við þessar sendingar? Stríðsglæpamenn gætu erft við þær ýmislegt sem stofnunin lætur ekki liggja í þagnargildi en svo gæti líka verið að einhver kvennanna sé að koma höggi á hinar. Ýmislegt annað gerist sem eflir ofsóknarkennd og undarlegar hugmyndir kvennanna hverrar og einnar og einelti gerir vart við sig. Í raun er það meira en svo að einelti geri vart við sig, það verður eiginlega þungamiðja sögunnar.

Með því að bera stöðugt þennan litla vinnuhóp, sem starfar við nokkurn veginn eðlilegar aðstæður, saman við stríðsglæpi á borð við þá sem áttu sér stað á Balkanskaga þegar jafnvel nágrannar hófu að pynta og myrða hverjir aðra, verður alvara eineltisins einhvern veginn svakalegri en ella hefði verið. Þessir tveir heimar snertast líka í vangaveltum Ibenar þegar hún skrifar hugleiðingar sínar um “sálfræði illskunnar” sem birtast í fréttabréfi stofunnar.

Iben er sú sem fær mest pláss í sögunni, þvínæst Malene en hinar minna. Samt er þeim einnig gerð rækileg skil enda bókin löng og ekki laus við smásmygli. En þannig getur það verið á vinnustöðum og það þarf að koma fram í sögunni. Alls kyns smáatriði hafa áhrif á líðan starfsfólks og hægt er að pirra sig yfir þeim endalaust. Hvað teljast smáatriði og hvað eru stórmál þegar upp er staðið? Alla vega geta smáatriðin auðveldlega snúist upp í stórmál þegar fólk er farið að velta þeim fyrir sér á alla kanta eins og gerist í þessari sögu. Af lýsingu vinnustaðarins skilur maður vel innilokunarkennd Anne-Lise, hvernig henni finnst hún oft útilokuð frá hinum og viðbrögð hinna.

Höfundi tekst afskaplega vel að koma til skila andrúmslofti því sem ríkir á vinnustaðnum og þrátt fyrir allan sparðatíninginn sleppur sagan alveg við að verða leiðinleg. Hún er nefnilega harla spennandi. Þótt varla flokkist hún sem spennusaga má segja að hún sé alveg á mörkunum með gíslatöku, morði, einelti og hinni sálfræðilegu spennu. Konurnar og jafnvel framkvæmdastjórinn, Paul, eru sérfræðingar í sjálfsblekkingu og afneitun. Við fáum að sjá hversu langt afneitunin getur leitt fólk. Okkar litla lokaða vinnustaðaveröld kallast á við hinn stóra heim og alla þá illsku sem þar getur skotið upp kollinum. Fín skáldsaga.

Ingvi Þór Kormáksson, desember 2006


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Níu nætur | 18.05.2010
Þegar ég spurði frænku mína, lestrarhestinn, hvað henni hefði fundist um nýjustu Neon-bókina fékk ég svarið: hún var dálítið furðuleg. ...


Booksearch

Author:
Book:


Skipta um leturstærð


Tungumál